Tuesday, October 10, 2006

þyrfti að hafa sjálfvirka skrifvél

Veit það. Agaleg ‘’pennaleti’’ hérna, eins og ég sagði við Ástu Björg er ég illa haldin af CCF svo þessvegna er ekki mikið pikkað þessa dagana.
Hér er annars alltaf það sama að frétta, strákarnir í skólanum og ég að klebera úr leiðindum hérna heima. Við drifum okkur annars i bíó á sunnudaginn svona til að komast út úr húsinu. Sáum Open Season, teiknimyndina, alveg hægt að hlægja að henni. Alexander farin að bíða eftir afmælisdeginum enda farið að styttast. Alltaf sama vandamálið með hvað á að gefa börnunum. Alveg með grænar af þessu tölvudóti og spilum sem alltaf er efst á óskalistanum.
Helstu fréttir eru að ég er loksins búin að vesla farmiðana til Íslands um jólin, þorði ekki að bíða lengur með það, hætta á að allt verði uppselt um jólin.

Friday, September 22, 2006

lítil stúlka fædd, en gaman


Já hún Bidda eignaðist stelpu 12. september, sem betur fer ekki 11. Gekk illa og seint en dafna báðar vel núna .
Annars allt gott að frétta héðan, meira að segja veðrið bara þokkalegt, sundfært.
Loksins búið að fata AKH upp líka, hann var smá abbó út í SÖH sem fékk fullt af fötum. Var greinilega orðin nauðsyn því hann komst ekki orðið í neinar buxur, allar of litlar, er farin að nota sömu stærð og Stefán Örn. Var að hugsa um að setja upp svona gullkorna síðu, þeir eru alltaf að segja eitthvað svona skemmtilegt, stundum kanski út af málaruglingi. Eins og í fyrradag þegar við Alexander fórum í fataleiðangurinn og á leiðinni heim var ég eitthvaðað tala um að þeir bræður væru að verða í sömu stærð, og hvort hann væri ekki ánægður með að vera að stækka. Þá segir Alexander'' nei, það er bara af því að Stefán Örn er svo þunnur, þessvegna erum við í sömu stærð''. Greinilega verið að hugsa um enska orðið thin sem er grannur og bara þýtt beint yfir. Gaman að þessu

Tuesday, September 12, 2006

frettir eða frettaleysi??


Búin að fá bátaskírteinið loksins, voða flott. Nú vantar bara bátinn :-)
Jæja komin tími á að skrifa eitthvað þó að það sé nú ekkert sérstakt svosem að skrifa um.
Ásta Björg farin heim aftur, sakna hennar alveg um leið. Hún segist vera búin að mála nýja herbergið sitt og vonandi komin með rafmagn núna og búin að koma sér fyrir. Strákarnir á fullu í skólanum og SÖH duglegur að vakna ca kl 6.30 á morgnana og hjóla í skólann. Semsagt allt í föstum skorðum.
Ég eignaðist gamla saumavél um daginn, vildi að ég hefði gömlu saumavélina hennar mömmu hérna líka, langar eiginlega í fleiri, er þetta della eða hvað??? :-Þ
Jæja en er semsagt að gera upp þessa gömlu vél, þvo og smyrja og setja saman, bara nokkuð gaman. Er aðeins að sauma líka, auðvitað, og reyni að setja myndir af þessu öllu við tækifæri.
Fór í mammo í gær en varð að fresta bakmyndatökunni þar sem AKH var veikur í skólanum svo ég varð að sækja hann, ekkert alvarlegt samt. Verst að hafa ekki gömlu b...myndirnar til að bera saman. Nú verð ég að fara í ultrasound líka til að vera viss um að allt sé í lagi.
Datt í hug þegar ég var í myndatökunni í gær og konugreyið var að kremja á mér brjóstin að þetta væri ekki svona vont ef karlmenn væru með brjóst. Getið þið ekki ímyndað ykkur ef að karlmaður þyrfti að setja punginn á sér í svona klemmu að það væri búið að uppfinna eitthvað betra tæki fyrir þetta, ha, ha ég spyr. Verið vissar um það.

Wednesday, August 30, 2006

rok, rok, rok

Þá fer fríið hennar Ástu Bjargar að taka enda. Það er búið að vera gott að hafa hana hér og hún búin að versla alveg heilan helling. Hún er þó búin að ná að fá smá lit á sig núna ekki eins og síðast þegar sólin var í fríi. Reikna með að við keyrum til Orlando á laugardag og gistum þar, flugið hennar er á sunnudagskvöld.
Strákarnir eru búnir að vera í fríi í skólanum í gær og í dag vegna TS Ernesto, sem er svo ekkert nema smá rok sem betur fer. Palli kom fyrr heim í gær til að setja allt laust í bílskúrinn en við Ásta Björg fórum í ´´Kringluna´´. Já ég get svarið fyrir að við skelltum okkur í mallið og þetta er sú besta búðaferð sem ég hef farið í. Það vara svo fátt fólk að það lá við að það væri tómt, það voru þó nokkrar hræður í innkaupaleiðangri sem hafa greinilega hugsað eins og við. Engin troðningur og engin hávaði, semsagt drauma búðarferðin.
Við reynum að halda okkur samt inni við í dag meðan restin af rokinu fer yfir.

Tuesday, August 15, 2006

skólinn byrjaður

Ásta Björg mætt á svæðið og veðrið bara gott, vona að það haldist allavega meðan hún er hér. Við keyrðum á laugardag til að ná í hana til Orlando. Það var smá hætta á að flugið væri seinkað þar sem allt flug er svona frekar seint núna. Var búin að segja henni að vera bara með það nauðsynlegasta í plastpoka í flugið þar sem ekki mátti hafa neitt með sér í flugvélina nema peningaveski, skilríki og miðann. Eins og við vorum sammála um að núna er líklega öruggasti tíminn til að fljúga milli landa. Jæja en hún kom aðeins seinna en áætlað með plastpokann J
Við vorum búin að panta hótel í Orlando þar sem bakveika konan treysti sér ekki í aðra bílferð sama daginn og krakkarnir ætluðu að koma við í Universal. Þar sem Sanford er ekki alveg í miðborginni, er reyndar lítill bær norðan við Orlando, þá var ákveðið að fara bara á hótelið og borða snemma slappa af og fara á sunnudeginum í Universal. Ég var nú bara merkilega liðug í bakinu eftir ferðina og hótelið á sunnudeginum, þó ég treysti mér nú ekki til að fara í neitt tæki, of mikið hopp og hoss. Við vorum fram eftir degi í garðinum og um 5 leytið var stefnan tekin á Miami. Það var nú gott að komast í sitt eigið þó ég verði nú að segja að ég er ekki viss um að nýlega dýnan mín sé nógu góð fyrir bakveikt fólk.
Strákarnir byrjuðu svo í skólanum í gær, Stefán Örn í High school og Alexander áfram í sínum middle. Stefán Örn hjólaði og þetta er ágætis hjólatúr á morgnanna fyrir hann en bara ein stór gata að fara yfir annars stígur alla leiðina. Hann þarf núna að vera komin í skólann fyrir 7.40, svolítið annað en í fyrra þar sem þeir byrjuðu klukkan 9. Alexander er ennþá kl 9 svo hann fær að sofa aðeins lengur en bróðir sinn, voða feginn því. Þeir komu heim í gær með tonn af pappír sem þurfti að útfylla svo ég sat í lengri tíma og las og fyllti út blöð. Stefán Örn fékk öll valfögin sín og þar á meðal financial computer (lauslega þýtt: fjármála tölfræði) sem er hluti af Academy of Finance. Þar sem hann fékk það fag þá verður hann að vera í DECA klúbbnum og þar verða menn að mæta í sparibuxum, skyrtu og með bindi svo nú verðum við að fara að versla fín föt á minn mann. Alexander hitti alla strákana aftur frá í fyrra, voða glaður og ég vona að hann fái nú einhverja góða vini til að vera með eftir skóla.

Friday, August 11, 2006

ekki alveg dauð

Þá er þetta legudæmi komið á aðra viku og ekki orðin nógu góð ennþá. Fékk semsagt svona líka í bakið að ég hef mig ekki hrært í heila viku, nema til að fara til læknisins og fá smá dóp til að geta verið til. Fannst ég nú ekki vera að gera neitt alvarlegt, saga eina litla grein úti í garði með Palla, sem betur fer var hann heima því það ætlaði nú bara að líða yfir mig af sársauka svo hann varð að styðja mig inn. Er búin að vera síðan á sterkum lyfjum og hitapoka, liggja eins og skata, frekar boring og finnst ég vera að fá legusár af þessu. Ásta Björg er að koma á morgun og ætlar að vera 3 vikur og vonandi verð ég ekki svona allann tíman. Frekar leiðinlegt fyrir okkur. En semsagt vona að þetta fari að lagast allavega þannig að ég geti gert eitthvað skemmtilegt með henni.

Wednesday, July 26, 2006

bara ekkert??

Þá er komin tími á að láta heyrast (eða sjást) smá lífsmark í suður Florida. Síðustu fréttir voru að Palli fór til Mobile, eina ferðina enn og er þar núna. Við 3 höfum dundað okkur aðalega inni þar sem veðrið hefur ekki boðið upp á neinar langferðir, eða stuttar heldur. Það er búin að vera þessi sami drungi yfir og eldingar og læti alltaf annað slagið. Loksins núna síðan á mánudag hefur veðrið eitthvað smá batnað svo vonandi er það góðs viti. Annars er ég líka búin að vera með verk í bakinu og liðirnir að pirra mig svo það er eins gott að fara varlega. Get ekki alveg hugsað það til enda að geta ekki saumað fyrir verkjum, svo verkjalyf, og krem og allt sem hægt er að nota er í notkun núna.
Síðan við komum heim hefur acið verið alveg að fara með okkur svo við kvörtuðum eina ferðina enn og loksins komu kallar í gær að setja nýtt. Ég hélt (reyndar þeir líka) að þetta myndi nú ekki taka neitt agalega langann tíma og við vorum jú að fara á bátanámskeiðið um kvöldið, þó að það hafi nú ekki verið í huga mér þegar þeir komu kl 9 um morgun. En 10 tímum seinna (þegar við áttum að vera mætt á námskeiðið) drögnuðust aumingja mennirnir loksins út búnir að vera að stanslaust að. Skápurinn sem tækið átti að vera í var svo þröngur að þeir þurftu að taka allt heila hollið í sundur og setja það saman inn í skápnum aftur, komst ekki inn öðruvísi. Við slógum því enn 1 hraðamet svo við gætum verið á seinni hluta námskeiðsins. Það var virkilega gaman og strákunum fannst mjög skemmtilegt að plotta kúrsa á kortinu og gerðu það alveg rétt. Þegar við komum heim virtist acið ekki hafa lækkað um 1 gráðu síðan við fórum, en þá var það á 84, hann sagði mér einmitt áður en hann fór viðgerðarmaðurinn að hann kæmi aftur á morgun að tékka á tækinu þar sem honum virtist það ekki skila alveg því sem það átti að gera. OK gamla tækið hefur þó komist í 80 svo það hefur verið smásjéns að sofa en þetta nýja fór ekki niður fyrir 83 í alla nótt. Alveg hægt að ímynda sér hvernig maður hafði það í hitanum. Nú í morgun fór ég að skoða þetta betur og komst að því að tækið úti var bara alls ekki í gangi svo viftan inni var bara að hringsóla loftinu sem er inni. Ekki nema vona að hitinn lækkaði ekki. Nú er ég búin að koma tækinu úti í gang og vona svo bara að þetta sé allt í góðu lagi, svo ég geti nú farið að sofa betur.

Tuesday, July 11, 2006

rigning endalaust

Búin að vera hundleiðinleg vika, endalaus rigning og þungbúið. Þetta er bara sama veður og á Íslandi eftir því sem ég heyri þaðan. Ekkert hægt að fara í sund eða á ströndina og eini ljósi púnkturinn er að hægt er með góðri samvisku að sitja og sauma inni. Vona að eitthvað fari að rætast úr þessu án þess að það komi fellibylur á okkur.
Við vorum annars á fyrsta kvöldi bátakúrsins sem er 8 skipti í allt. Það var bara skemmtilegra en ég bjóst við, fullt af fólki og meira að segja strákunum leiddist ekkert þó seinni hlutinn hafi verið svona í lengsta lagi. Ætla að reyna að fá þá til að gera heimverkefnin líka svo þeir læri meira. Palli býst við að koma heim annað kvöld. Jújú. Varðkisi sem alltaf er að væflast hér í kringum húsið er ekki lengur svona hræddur við okkur þó við komum út eða löbbum nálægt honum, er kanski búin að fatta að hann fær kanski eitthvað gott ef hann fer ekki í burtu þegar við sjáumst. Gáfaður kisi.

Wednesday, July 05, 2006

4. júlí flugeldar

Jæja loksins sást í einhverja flugelda hér í Florida. Eins og þetta var aumt á gamlárskvöld þá var það flott í gær. Fórum með Phil og Libby til vinafólks þeirra sem voru með heilan helling af flugeldum og fullt af fólki. Þeir halda þó allavega almennilega upp á þjóðhátíðardaginn ammrikanar. Palli kom heim á mánudagskvöld og fer í dag aftur til Mobile. Segist koma aftur á þriðjudag, við sjáum það þegar það gerist lol. Ég og strákarnir ætlum að skella okkur á bátanámskeið svo við vitum nú eitthvað um slíkt ef okkur skildi detta í hug að fara að sigla eitthvað. Erum búin að vera að spá í það síðan við komum en ekkert farið enn. Saumaskapurinn er loksins farin í gang aftur eftir ferðalagið. Það var bara allt of heitt í herberginu þar sem acið virkaði ekki almennilega. Það er orðið betra núna sem betur fer, hætt að frjósa í tækinu. Hér er búið að vera frekar leiðinlegt veður, rigning svona annað slagið svo ekki fer maður á ströndina í svoleiðis. Vona að það fari að sjást almennilega í sól.

Thursday, June 29, 2006

Komin heim í heiðardalinn.......


Ströndin á Clearwater, akkúrat þar sem við vorum.
Komin heim.
Lögðum af stað á þriðjudag áleiðis heim. Keyrðum gamla þjóðveginn sem liggur meðfram ströndinni og í gegnum helstu bæji og borgir þar. Þar sem sú leið er seinfarnari ákváðum við að skoða okkur um í rólegheitum og gista svo einhverstaðar á leiðinni. Við fórum í gegnum Pensacola, vorum aðeins búin að skoða þar áður svo við vorum ekkert að eyða of miklum tíma þar. Þegar við komum til Panama City urðum við aðeins að prófa ströndina. Við Mexico flóann, (Gulf of Mexico) er sandurinn á ströndunum töluvert öðruvísi en við eigum að venjast Atlandshafsmegin. Sandurinn er hvítur eins og snjór og svo fínn að það brakar í honum þegar maður labbar á honum. Sjórinn er þarna líka glærgrænn eins og emerald og þessvegna heitir einmitt ein ströndin Emerald beach. Við keyrðum síðan áfram til Apalachicola en þar beygðum við upp til Tallahassee og á I-10 sem er aðalhraðbrautin og fundum hótel í bæ sem heitir Madison. Við lögðum svo af stað aftur um 11 leytið og ákváðum að keyra til Tampa eða St. Petersburg þar sem við ætluðum að finna okkur eitthvað að gera og skoða. Þegar við komum til Clearwater var ströndin of góð til að sleppa við að dífa sér í svo við eyddum dágóðri stund þar. Meira að segja sjórinn er heitari vestanmeginn enda ekki úthaf eins og hjá okkur. Strákarnir léku sér við fuglana, ekki lygi. Fuglarnir voru svo ágengir í einhver síli sem eru þarna að þeim var alveg sama þó það væri fullt af fólki, þeir bara dembdu sér niður svo við gátum næstum tekið í lappirnar á þeim. Við komum heim um klukkan 1 um nótt og allir í sturtu þar sem við höfðum bara farið beina leið af ströndinni og heim. Það var virkilega gott að sofa í sínu eigin rúmi í nótt en hundleiðinlegt að þvo og sortera allann póstinn sem hrugast hafði upp meðan við vorum í burtu. Nú er bara að fá fja.... ac ið til að virka almennilega svo maður svitni ekki út úr rúminu á næturnar. Annars er bara ágætis hitastig hér núna svona um 30 gráðurnar ekkert alltof heitt bara akkurat eins og það á að vera.

Thursday, June 22, 2006

Dagsferð


Fórum eldsnemma á þriðjudaginn til Louisiana. Palli ætlaði að hitta einhverja kalla í Houma sem er suðvestan við New Orleans svo ég og strákarnir ætluðum að skoða okkur um á meðan. Tekur 2 ½ tíma að keyra héðan til New Orleans svo ca 40 mín í viðbót til Houma. Það var greinilegt þegar við komum að úthverfi New Orleans að mikið hafði gengið á í Katrinu þar sem ennþá eru heilu hverfin í rúst. Ekki hræða á hreyfingu á stóru svæði, bara tóm hús hálfhrunin eða gluggar brotnir og trúlega rakaskemmd, ekki skrýtið þegar maður skoðar mynd tekna meðan flóðið var enn. Þetta er frekar óhuggulegt og ennþá verra þegar við keyrðum heim um kvöldið framhjá sömu húsum sem voru þá eins og draugaborg. Við fengum okkur að borða þegar við komum til Houma þar sem Palli var búin að mæla sér mót við manninn kl. 1. Við strákarnir keyrðum svo semleið lá til New Orleans og skoðuðum landið og vatnið sem heitir því skrýtna nafni Lake Pontchartrain, getur einhver borið það fram með góðu móti J. Brúin yfir það er örugglega lengsta fasta brú í heimi, held ég en hún er 24 mílur á lengt, yfir mitt vatnið. Á miðri brú er ekki hægt að sjá land í báðar áttir.
Gátum nú ekki gert mikið af viti þar sem Palli var fljótur að rippa þessum fundi af svo við þurftum að sækja hann aftur til Houma. Fórum svo öll til New Orleans og skoðuðum miðbæinn sem er merkilega heill miðað við úthverfið og löbbuðum aðeins um franska hverfið og fengum okkur síðan að borða þar. Þar sem farið var að rökkva var ekki mikið hægt að skoða annað og keyrðum við því til baka til Mobile og vorum komin þangað rétt fyrir miðnætti.

Monday, June 19, 2006

Enn á ferðinni


Jæja þá erum við búin að skoða aðeins meira. Fórum smá sveitarúnt og ætluðum aðalega að fá okkkur ís einhverstaðar en enduðum í Mississippi án þess að fá ís. Fórum síðan á sunnudag í gamalt virki sem er á eyju sem heitir Dauphin Island. Klukkan orðin það margt að við gátum ekki skoðað Sea lab eða The Estuarium eins og það heitir (það þýðir frá latínu “freshwater from inland is mixed with saltwater from the sea”). Við strákarnir fórum svo þangað í dag og skoðuðum alla fiskana, krabbana og fleiri vatns og sjávardýr, sáum því miður enga höfrunga í dag, trúlega of mikill sjógangur. Við ætlum að fara öll til Louisiana á morgun þar sem Palli er að fara á fund þar. Við getum vonandi fundið eitthvað að skoða þar annað en skemmdir eftir Katrinu.

Saumakelling


Er búin að dunda mér við að sauma svona milli ferðalaga og meðan strákarnir sitja í tölvu. Hér er afraksturinn eftir það.Sést betur í saumaalbúmi.

Sunday, June 11, 2006

Mobile ennþá

Mobile hefur greinilega líka fengið skell á sig og mikið ennþá af byrgðum gluggum og lokuðum stöðum. Hér er fullt af fallegum húsum í þessum skemmtilega suðurríkjastíl en líka mikill sveitabragur einhvernveginn á öllu að mér finnst. Mobile er samt alveg þokkalega stór borg.

Erum búin að fara og skoða herskipið USS Alabama og kafbátinn USS Drum. Tók alveg marga tíma að skoða þetta allt, fullt af herbílum og flugvélum líka. Keyrðum aðeins um í gær, meðal annars framhjá Bayou La Batre og út að ströndinni þarsem ennþá eru bátar og skip upp á landi síðan Katrina fór yfir. Það er ennþá á mörgum stöðum allt lokað og í rúst, og fullt af hálfónýtum húsum og fólk býr í hjólhýsum sem FEMA skaffaði þeim í fyrra til að búa í til bráðabyrgða.
Ætlum að skoða meira hér, Er til dæmis ekki ennþá búin að finna góða quiltbúð ennþá (strákunum til mikillar gleði) og líka eftir að finna sundland.

Thursday, June 08, 2006

Á ferðinni

Þá erum við komin til Alabama. Við keyrðum á þriðjudaginn upp alla vesturströnd Florida og vorum komin til Mobile AL kl 9 um kvöldið. Erum á svona lala hóteli en þó með íbúð með 2 herbergjum, verst að sundlaugin er lokuð þar sem verið er að gera hótelið upp. Palli fór svo í vinnuna í gær en ég og strákarnir skoðuðum aðeins bæinn.

Wednesday, May 31, 2006

Löng helgi búin


Þá eru við búin að skoða allt space center, loksins. Fórum á mánudaginn og beint í rútu þegar við komum þangað. Fyrir innan hlið er svo stoppað á 3 stöðum og skoðað, þar á meðal skotpallurin sem geimskutlunni er skotið frá. Þar var Discovery tilbúin fyrir næstu ferð, en það á víst að skjóta henni upp 1 júli eða þar um kring. Geimskutlunni er alltaf komið fyrir allavega mánuði fyrir skot á pallinum. Þetta var fróðlegt og skemmtilegt og margt að skoða.
Palli fór svo í gærmorgun til Alabama og erum við að hugsa um að fara þangað ef hann verður eitthvað meira en fram að helgi þar.
Ásta Björg er að vinna við öryggisgæslu en ekki umferðarvörslu lol. Hún byrjaði á sunnudaginn og var að vinna allann þann dag og mánudaginn og bara gaman hjá henni.

Sunday, May 28, 2006

sumarið er formlega byrjað


Ásta Björg byrjuð í vinnunni, flottur buningur. Gott að geta verið úti í sumar.
Strákarnir byrjaðir í sumarfríi svo nú er bara að finna eitthvað fyrir þá að gera annað en hanga í tölvu. Loksins þokkaleg sól í dag, er búið að vera þungt yfir. Við ætlum að drífa okkur á morgun, þar sem er frídagur hjá Palla, í space center aftur og sjá það sem við misstum af síðast.

Friday, May 26, 2006

2 litlar dúllur




Loksins komu myndir af litlu krílunum. Fínir strákar.
Það verður nóg að gera hjá Önnu Pálu þegar hún verður komin með 3 ákveðna stráka heim.
Ég er búin að vera á fullu að finna einhverjar sumarbúðir fyrir strákana svo þeir geri nú eitthvað annað en hanga í tölvu í sumarfríinu. Verða að komast eitthvað út og hitta aðra krakka. Það er búið að vera frekar drungalegt veður, greinilega að koma sumarveður, hálfgerð rigning annað slagið og þrumur í fjarska svo það hefur lítið verið hægt að vera úti eða í sundi. Vonandi stendur það til bóta, maður er að mygla svona inni.

Tuesday, May 23, 2006

Dagatal



Eins og sjá má þá er ég búin að setja dagatal hér á síðuna til hægri. Mig langar að byðja ykkur sem lesið póstana að setja inn afmælisdaga ykkar og fjölskyldunnar. Það er alltaf gaman að fylgjast með hvenær fólk á afmæli og minni mitt er ekki eins og það var hér áður. Það sem þið þurfið að gera er að ýta á linkinn og síðan finna daginn og ýta á hann þar sem kemur svo skrifað ''post a new event '' þar skrifið þið svo atburðinn, afmæli brúðkaupsdag eða annað. Takk fyrirfram allir.

Monday, May 22, 2006


Er maður nú bara búin að eignast 2 litla frændur bara si svona.
Datt nú ekki í hug þegar ég hringdi í Stebba áðan að þeir mundu nú fæðast meðan við töluðum saman eða svoleiðis. Þeir áttu nú ekki að koma í heiminn fyrr en um miðjan júlí svo stressið var frekar mikið meðan ég beið eftir frekari fréttum. Þeir eru víst frískir svona eftir atvikum, létu víst aðeins heyra í sér svo loft hafa þeir haft í lungunum. Veit að Anna Pála mín hefur verið frekar stressuð yfir þessu öllu og vona að hún jafni sig fljótt og óska henni til hamingju með 2 sterka stráka.

Thursday, May 18, 2006

skólaferðir

Þá er Alexander búin að fara í sína skólaferð. Þau fóru á laugardagsmorgun kl 5.30 af stað til Orlando til að fara í Sea World. Það var alveg rosalega gaman segir hann, þó að hann hafi nú aðeins tínst pínulitla stund í enda ferðarinnar. Það fór nú allt vel og hann gat hringt í mig og ég í kennarann sem var einmitt farin að leita að honum. Hann var komin fyrir utan þar sem þau áttu að hittast til að fara heim svo hann þurfti ekki að bíða lengi eftir þeim. Heimferðin gekk vel og þau voru komin heim kl 11 og minn maður var varla búin að halla höfðinu á koddann þegar hann sofnaði, enda búin að eiga langann dag.
Skólaferðin hans Stefáns Arnar er svo í dag og ég skal alveg viðurkenna að ég verð fegin þegar hann verður komin heim. Ekki það að ég hafi áhyggjur af stóra barninu, bara gott að vita af þeim heima en ekki svona langt í burtu. Hann þurfti að vakna kl 5 því rútan fór kl 6.20 af stað til Universal, Orlando. Þau eiga svo að koma heim kl 10 í kvöld.
Ég var farin að hafa áhyggjur af andamömmu því hún hefur ekki sést i marga daga núna svo ég var voða glöð þegar hún kom vappandi með ungana sína núna rétt áðan. Það er búin að vera Alli svamlandi hér í kanalinum núna í nokkra daga og fór loksins í gær mér og öllum öndunum til mikils léttis. Það er líka búið að vera svo einkennilegt veður undanfarið, stormur að fara yfir og eldingar og rigning, sem er nú reyndar gott fyrir gróðurinn og everglades (vitrir menn segja að það sé vegna þurrka sem Allarnir eru að færa sig austar, ekkert æti í everglades og lítið vatn) en slæmt fyrir göngurnar mínar. En maður verður víst að gleðjast yfir hækkuðu vatnsborði svo allarnir geti verið heima hjá sér og vonandi ekki fleiri árásir, frekar óhuggulegt.

Friday, May 05, 2006

sumarfríishugleyðingar

Mér til mikillar gleði kom andamamma syndandi í gær með alla 12 ungana sína. Þeir 2 höfðu greinilega verið í felum þegar ég taldi bara 10. Gaman. Veðrið er alveg akkurat sumar núna og sundlaugin vel nýtt. Kaffikönnuvandamálið leystist í bili með að Palli kom með könnu heim úr vinnunni sem var bara svona í afgang. Einhver hafði nú eitthvað kvartað yfir að hún héldi illa heitu svo nú sjáum við til með hana. Hann kom líka með síma sem var akkúrat það sem vantaði líka svo það leystist líka.
Það er farið að styttast í skólafrí hjá strákunum svo það fer að koma sumarfríis fílingur í þá. Við erum nú ekki farin að plana neitt fyrir sumarfríið ennþá en ég er eiginlega ákveðin í að fara til Ástu Bjargar í haust þegar hún flytur í hina íbúðina. Reikna frekar með að það verði bara ég því skólinn verður byrjaður hjá strákunum. Svo erum við svona nokkurnvegin ákveðin í að fara til Íslands um jólin. Þannig að það er eins gott að fara að athuga hvað maður getur gert sniðugt í sumar, ekki seinna vænna. Veit að það verður allavega að koma við í Universal eins og 1 sinni ef ekki oftar. Annað verður bara að koma í ljós.

Wednesday, May 03, 2006

kaffileysi

Þá er kaffikannan alveg búin að gefa upp öndina. Ég var búin að lækna hana 1 sinni en nú vil hún ekki meir. Ekkert annað að gera enn að kaupa nýja og jarða þá gömlu. Hef haft augastað á svona tviskiptri Krups sem gerir venjulegt kaffi og expresso en er ekki alveg viss (er einhver hissa, þetta er ég), þarf greinilega að hugsa þetta vel en nú er tíminn uppurinn og verð að taka ákvörðun í dag. Palli minn lifir nú ekki af marga daga kaffilaus heima og það er svo ansi dýrt að vera á starbucks á hverjum degi. Nú er bara að vafra aðeins og skoða kaffivélar.
Gangan gengur, fór reyndar ekkert í gær, eitthvað vesen í maganum svo það var gott að komast aftur af stað í dag. Gleymi alltaf að taka með mér skrefateljarann. Ætlaði að gera það bara svona að gamni.
Andamamma var í gær með sína 12 unga en í morgun voru þeir bara 10, sorglegt en svona er andalifið.

Monday, May 01, 2006

afmælið búið

Þá er nú 1 afmælið enn liðið an stórtíðinda. Þetta var nú ágætis afslöppunarhelgi. Ekkert varð úr fótboltanum hjá strákunum svo við vorum öll hérna heima í rólegheitum.
Mamma gaf mér Tempur koddann, sem ég er búin að sofa með síðan hún var hér, í afmælisgjöf . Þetta er allt annað með axlirnar og hálsinn. Maður er ekki næstum eins stífur á morgnanna. Var orðið alltaf með hálsríg þegar ég vaknaði. Ég fékk Ipodinn frá strákunum svo nú þarf ég ekki að nappa Alexanders þegar ég fer í gönguna. Mikið þægilegri og 3 sinnum minni enda heitir hann nano, segir sig sjálft að hann er lítill með svoleiðis nafn. Kláraði spilið sem ég fékk frá Ubi svo nú get ég hjálpað hinum spilurunum á foruminu eins og hinir unglingarnir. Frekar stutt en ágætt.

Friday, April 28, 2006

labba, labba

OK ég labbaði semsagt ekki eins langt í dag en ég hef góða afsökun. Blöðrur á öðrum fæti sem eru ekki alveg grónar og nýja strigaskó. Einmitt fór í gær og keypti þá. Ætlaði að spara en komst að þeirri niðurstöðu að fæturnir á mér skiptu meira máli en nokkrar krónu eða dollarar. Þetta eru meiri hátar góðir skór en finn að ég þarf aðeins að tillabba þá. Er orðin svo vön að hafa gelsólana að ég var svona smátíma að átta mig á að nú eru þeir bara innbyggðir í skóna. Flott ha..
Alexander var eins og ég skrifaði hér fyrr í vinnunni með pabba í gær og ég bjóst við að þurfa að sækja hann kl 1. Nei héld nú ekki. Minn maður skemmti sér svo vel í vinnunni að hann var allann daginn með pabba sínum. Hann sofnaði líka eins og grjót þegar hann lagðist á koddann í gærkveldi.

Thursday, April 27, 2006

andalaust eða ekki

Þá er Alexander farin með pabba sínum í vinnuna. Ég var nú viss um að hann mundi ekki vakna í morgun kl. 5.30 en hann var óvenjulega sprækur á fætur. Það er dagur í skólanum sem heitir Take your Child to Work Day og þá mega börnin fara með foreldrunum í vinnuna í staðin fyrir skólann. Ég sæki hann svo kl.1 en þá er hann jú búin að vera sinn fulla skóladag.
Heyrði einhver læti áðan úti, andalæti og svei mér þá fólksfæluendurnar bara farnar að synda í sundlauginni. Ég kalla þær það vegna þess að hér í ammríku eru ferlega ljótar endur, stórar og ljótar í framan en það hafa alltaf verið 2 svona sætar venjulegar endur á þvælingi hér í kring. Alltaf þegar ég gef öndunum þá koma stóru ljótu alltaf hlaupandi ekki hræddar við neitt en þessar litlu hlaupa í burtu ef maður kemur nálægt þeim. En nú eru þær semsagt að fá sér sundsprett í sundlauginni.
Jæja farnar, þetta var sem betur fer stutt stopp hjá þeim.
Það er allt gott að frétta af Ástu Björg, er farið að styttast í sumarfrí hjá henni en hún á eftir að fara í 1 próf í byrjun mai og svo er bara vinna, vinna.

Maður var aldeilis var við að sumarið er að koma í gær þegar það rigndi eins og hellt úr fötu og þrumur með því. Orðið ansi rakt líka.

Wednesday, April 26, 2006

göngublaðra

Ég hélt nú bara að ég mundi ekki hafa það heim úr göngunni í dag. Þannig er að á mánudaginn fékk ég þessa líka risa blöðru aftan á fótinn, eftir skóna. Var eiginlega ákveðin í að kaupa nýja með það sama en gerði ekki. Fór svo ekkert í gönguna í gær, mikið annað að gera og gleymdi þessvegna öllu með þessi skókaup. Uppgötvaði svo í morgun þegar ég ætlaði að drífa mig af stað að ég var ennþá með blöðru og ekki búin að fjárfesta í nýjum skóm. Þar sem það verður ansi heitt þegar líða tekur á daginn og ekki hægt að labba í svoleiðis hita ákvað ég að plástra blöðruna og reima svo vel skóna og drífa mig svo af stað. Almáttugur minn hefði ég bara drifið mig í búðina að kaupa nýja skó frekar en þetta. Eins og ég sagði þá var ég semsagt eiginlega bara á öðrum fæti síðasta spottann og segi bara guð sé lof fyrir ipodinn hans AKH og Epli i remixinu hans Björns, það hélt mér gangandi þangað til ég komst heim.

Monday, April 24, 2006

mánudagur

Þá er farið að verða sumarlegt veður hér aftur, heitt og þvalt. Eins gott að fara snemma, eða seint, í gönguferð dagsins. Strákarnir skemmtu sér í sundi í gær, alveg orðin fín laugin ekkert köld lengur. Stefán Örn aðeins brenndur á bakinu, erfitt að muna þetta með að vera alltaf að bera á sig sólkrem. Andamamma er búin að missa 1 unga, kallast nú bara gott að halda 12 ennþá. Ég held bara að ég sé búin að setja allar myndir í albúm, verst að myndavélin gleymdist þegar við fórum á Coca Cola safnið svo það eru frekar leiðinlegar myndir þaðan sem teknar voru á síma. Betra en ekkert.
(Þar sem þetta fór ekki inn á mánudaginn kemur það hér)

Friday, April 21, 2006

Fuglahúsið, eða þvottahúsið?

Þá er ég búin að koma fugli dagsins út. Þetta er semsagt ekki í fyrsta sinn sem það kemur fugl inn til mín. Þeir vita greinilega að hér býr kona sem á fult af fuglakorni en fatta bara ekki að þegar þeir koma inn er erfitt að komast út aftur. Hef þá grunaða um að troða sér niður um skorsteininn, heyri allavega alltaf í þeim fyrst þar. Jæja hann er semsagt floginn sá fuglinn, vona að hann eigi ekki unga í skorsteininum.
Nú hér er allt að komast í sama hægaganginn og fyrir ferð, þvottavélinn komin í lag sem betur fer og framundann margir þvottar. Alexander alltaf að koma heim með A á testunum en heimalærdómurinn ennþá að vefjast eitthvað fyrir honum, sem er ekki gott fyrir kvartalseinkunnirnar. Veit ekkert betra orð fyrir þetta á Ísl. en vetrinum er skipt í 4 hluta og krakkarnir koma semsagt með heim með einkunnarblöð fyrir hvern hluta þegar honum líkur. Er alltaf að reyna að ýta á hann með að vera nú duglegur að læra heima og skila öllu í skólanum en þori ekki að vera of kröfuhörð heldur, vont að finna meðalveginn i því eins og öðru. Stefán Örn er alltaf sama Aið út í gegn en þori heldur ekki að vera of upprifin yfir því svo Alexander heyri. Þetta er nú meira ruglið.

Thursday, April 20, 2006

Gleðilegt sumar

Jæja þvottavélin komin í lag. Já gleymdi að segja frá því að ég rétt náði að þvo eina vél eftir að við komum úr ferðalaginu áður en hún gaf upp öndina. Nú var ekki um annað að ræða en að drífa sig í búðina að kaupa sér fleiri föt. Rosalega góð ástæða til þess. Kanski maður ætti að fara að lauma nagla svona annað slagið í vélina, bara svona svo maður geti fengið sér eitthvað skemmtilegt og nýtt að vera í. Verð að láta fylgja með mynd af stórfjölskyldunni í garðinum.



Uppgefin

OK þá er ég endanlega uppgefin á hinu blogginu. Annaðhvort er maður kæfður í auglýsingum eða kemst ekki inn nema gefa upp kennitölu, af öllum tölum, nema hvortveggja sé. Nenni ekki svona veseni. Þessi síða verður að duga meðan ég athuga hvað ég geri úr þessu.