Saturday, February 24, 2007

fyrirlestur

Ég fór í gærkvöldi á fyrirlestur hjá CSQ (coral Springs Quilters) með Joan Shay sem gerir þau fallegustu og líflegustu blóm og fugla á quilts sem ég hef nokkurntímann séð. Þar fyrir utan var hún hress og skemmtileg að hlusta á. Það er “workshop” í dag þar sem hún kennir hvernig á að vinna þetta og hefði nú verið gaman að fara þangað en finnst það of langt fyrir strákana að vera eina heima í allann dag, hrædd um að þeir gleymi að borða og svona ef þeir fá að vera eftirlitslausir í tölvu heilan dag. Allavega komin með bókina hennar svo ég get nú alveg reynt að gera svona sjálf.
Ég er líka formlega orðin meðlimur í Coral Springs Quilters sem mér líst alveg rosalega vel á , fullt að skemmtilegu fólki.
Bakið er þokkalegt meðan ég tek nógu mikið af verkjalyfjum svo nú geri ég það bara, allt til að geta verið á róli.

Friday, February 23, 2007

hækkandi sól :-)

Þá er ég komin með þessar líka fínu myndir innanúr bakinu á mér. Ekki get ég nú lesið neitt úr þessum myndum en heldur ekki ætlast til að svona venjulegt fólk skilji þetta. Ég sé allavega að ég er með hrygg og eitthvað meira af beinum þarna, hvort þau eru eins og þau eiga að vera fæ ég að vita þegar læknirinn skoðar þær næsta fimmtudag. Næsta vika verður semsagt enn ein læknaheimsóknavikan, fyrst er það brjóstaskurðlæknirinn og svo beina sérfræðingurinn. Æji vona að þessu fari nú að ljúka.
Annars er nú að verða bjartara yfir florida og aðeins að hækka hitastigið eftir kuldakastið.
Ég dreif mig á fund með föndurkonum hverfisins og skemmti mér konunglega og ákveðin í að fara þar oftar. Þær hittast einu sinni í mánuði eins og quilt konurnar, bara vikunni á undan svo það getur ekki verið betra. Í kvöld er aukafundur í quilthópnum þar sem kemur gestakennari. Það verður fróðlegt að heyra hveð hún hefur að segja.

Var að lesa skemmtilega grein um raðara (filers) og hlaðara (pilers). Skilgreiningin er sú að raðarar eru mjög skipulagðir og hafa allt í röð og reglu, allt raðað vel í nærfataskúffunni þeirra, fötunum raðað eftir lit og dósamatur í stafrófsröð í hillunum. Hlaðarar eru ..hm já hlaðarar, ekkert hægt að lýsa því betur. Ég tilheyri óumdeilanlega seinni hópnum.
Konan sem skrifaði var að gefa góð ráð um tiltekt, gott mál það. Þar sem ég er búin að eyða heilli helgi í að taka til í pappírum sem samkvæmt fyrri skilgreiningu voru að hlaðast óhuggulega upp hjá mér fannst mér upplagt að reyna að fá smá “tip” frá þessari góðu konu sem greinilega hafði rannsakað þetta fyrirbæri vel. Semsagt núna eru pappírarnir mínir eins og heima hjá raðara en hversu lengi það helst er ekki gott að segja. Allavega nýt þess meðan það helst. Næsti staður til að rannsaka og fá tip um er þvottahúsið þar sem fjallið “ófrágengin” er að verða ansi hátt og hætta á skriðuföllum ef heldur fram sem horfir.

Monday, February 19, 2007

læknaspjall eða þannig

Jæja 1 af mörgum læknaheimsóknum búin og ekki svo slæmt. Fór til læknisins í morgun með öxlina og tók bakmyndirnar með mér, aðeins að kvarta yfir því líka þar sem það er mikið verra en öxlin. Hann tók röntgenmyndir af öxlinni og var ekkert alvarlegt að sjá, smá skekkja á litlu beini, en hann vill samt að ég fari í sjúkraþjálfun með öxlina, ok gott mál með það. Svo var það bakið sem er orðið það slæmt að ég get ekkert gert af viti. Þó hann taki nú yfirleitt ekki sjúklinga með bakverki þá kíkti hann á myndirnar og gaf mér svo vottorð í MRI og fékk ég tíma í það á fimmtudag, ekki löng bið það. Á að fara til sjúkraþjálfarans líka á fimmtudaginn svo vonandi fer nú eitthvað að gerast með þetta leiðindabak mitt. Er orðin frekar leið á þessu hreyfingaleysi.
Það var sami kuldinn í nótt og Stefán Örn greyið komin með kvef, samt lét ég undan og setti hita á stofuna í gær. Held hann hafi fengið þetta í gær þar sem hann fór hjólandi í rokinu til skólafélaga að gera eitthvað verkefni. Vona að það batni nú fljótt. Alexander er búin að vera alla helgina og í dag þar sem er frídagur hér að gera 1 lítið verkefni fyrir skólann en hann er nú ekki mikið að flýta sér frekar en vanalega að gera heimavinnu. En þetta þokast allt í rétta átt hjá honum þó hægt fari. Ferðatölvan er búin að vera að stríða mér með að fara ekki í gang “blue screen of death” svo það hefur dregist að ná í þessar myndir sem eru auðvitað þar. Þetta kemur allt vonandi með hitanum sem þeir eru búnir að spá að sé nú loksins að koma.

Sunday, February 18, 2007

pappírsflóð

Ég get svarið fyrir að það væri hægt að kynda heilt hús í viku ef ekki mánuð á öllu þessu pappírsflóði sem er að kæfa mann. Ég eyddi öllum deginum í gær í að fara í gegnum pappíra sem voru bókstaflega að yfirtaka húsið, voru alstaðar. Held meira að seggja að þeir finni sér felustaði sjálfir, allavega stundum einkennilegir staðir sem maður finnur hina ýmsu pappíra. Sé að það þarf virkilega að kaupa annan "file" skáp. Mér varð hugsað til þess er ég fór með Libby til nágranna hennar eftir Wilmu að ná í mat sem hún hafði fengið að geyma þar í frysti. Frystirinn var í bílskúrnum hjá þeim og maður þurfti að skáskjóta sér milli skjalaskápa til að komast að frystinum sem var í einu horni bílskúrsins. Og þeir náðu alveg upp í loft líka, í þessum tvöfalda "bílskúr", sem var það náttúrulega ekki lengur því það hefði ekki komist leikfangabíll þarna inn. Bískúrinn var semsagt orðin skjalageymsla. Ég er semsagt búin að fylla minn litla einfalda skjalaskáp og sé að ég verða að fjárfesta í öðrum ef ég ætla að hafa pappírana á vísum stað í framtíðinni. Kanski verð ég að fá mér tvöfaldann bílskúr seinna meir til að geyma alla skjalaskápana, hver veit.
Nú veðrið, verður maður ekki alltaf að segja smá veðurfréttir líka, ha? Hér er semsagt búin að vera ferlegur kuldi á næturnar og ekki laust við að það sé enn frekar kalt og ekki bætir havaðarokið sem er að ganga yfir núna. Sólin er samt eitthvað að reyna að bæta úr þessu og skilst mér að það eigi eitthvað að hlýna á morgun. Vona það því það verður svo ferlega þurrt loft hér þegar það kólnar að maður er þurr ofan í ra...

Saturday, February 17, 2007

köld helgi

Jæja þá er Palli á leið til Orlando frá Tampa. Hann var að vinna þar í gær og fer svo í flug í kvöld til Íslands. Miðað við kuldann hér í morgun er örugglega jafnkalt í Orlando og á Íslandi, eins gott að hann er með hlý föt með sér. Ég er allavega komin í peysu, nenni nú ekki að setja hitan á, það verður alltaf svo vond hitalykt þegar maður notar hita svona sjaldan. Það er þó allavega sól úti svo það ætti að hitna aðeins þegar líður á daginn.
Ég fór eina ferðina enn í mammó í gær og það virðist ekki vera breyting síðan í september svo vonandi er ekkert að gerast þarna. Fer til sérfræðingsins í enda mánaðarins svo þá fæ ég að vita eitthvað meir. Þessum læknaheimsóknum mínum ætlar seint að ljúka og er ég að verða frekar þreytt á þessu en næst fer ég á mánudag til að láta skoða öxlina og bakið og vona að ég fái nú að fara í sjúkraþjálfun þar á eftir svo ég geti farið að gera eitthvað sjálf. Þori voða lítið að hreyfa mig, er svo hrædd um að bakið fari alveg eins og í haust.

Tuesday, February 13, 2007

já já leti og ...

Ok veit að það er alveg orðið skammarlega langt síðan ég skrifaði síðast, en svona er þetta bara. svona er þetta bara.
Við fórum semsagt familien til Íslands um hátíðarnar og var það virkilega góð ferð. Gaman að sjá alla stórfjölskylduna, og öll nýju börnin. Veðrið var líka alveg þokkalegt meðan við vorum, fengum að sjá smá snjó sem var nú allt í lagi meðan það var ekki meira en þetta. Öll komumst við svo klakklaust heim aftur og allt komið í fastar skorður aftur.
Ásta Björg komin á fullt aftur í skólanum í Scotlandi og strákarnir hér. Strákarnir loksins farnir að eignast einhverja vini hérna, sem betur fer. Alexander farið að ganga líka betur í heimavinnunni þó það sé erfitt að fá hann til að sitja kyrran við það. Stefán Örn gengur líka vel í skólanum. Kom með bikar heim þar sem hann er með í fylkismóti sem DECA http://www.fldeca.org/con_scdc.htm heldur í Orlando í mars. Það verður vonandi gaman fyrir hann. Er að reyna að koma myndum á myndasíðuna frá Íslandsferðinni og eitthvað fleira kanski.