Friday, February 23, 2007

hækkandi sól :-)

Þá er ég komin með þessar líka fínu myndir innanúr bakinu á mér. Ekki get ég nú lesið neitt úr þessum myndum en heldur ekki ætlast til að svona venjulegt fólk skilji þetta. Ég sé allavega að ég er með hrygg og eitthvað meira af beinum þarna, hvort þau eru eins og þau eiga að vera fæ ég að vita þegar læknirinn skoðar þær næsta fimmtudag. Næsta vika verður semsagt enn ein læknaheimsóknavikan, fyrst er það brjóstaskurðlæknirinn og svo beina sérfræðingurinn. Æji vona að þessu fari nú að ljúka.
Annars er nú að verða bjartara yfir florida og aðeins að hækka hitastigið eftir kuldakastið.
Ég dreif mig á fund með föndurkonum hverfisins og skemmti mér konunglega og ákveðin í að fara þar oftar. Þær hittast einu sinni í mánuði eins og quilt konurnar, bara vikunni á undan svo það getur ekki verið betra. Í kvöld er aukafundur í quilthópnum þar sem kemur gestakennari. Það verður fróðlegt að heyra hveð hún hefur að segja.

Var að lesa skemmtilega grein um raðara (filers) og hlaðara (pilers). Skilgreiningin er sú að raðarar eru mjög skipulagðir og hafa allt í röð og reglu, allt raðað vel í nærfataskúffunni þeirra, fötunum raðað eftir lit og dósamatur í stafrófsröð í hillunum. Hlaðarar eru ..hm já hlaðarar, ekkert hægt að lýsa því betur. Ég tilheyri óumdeilanlega seinni hópnum.
Konan sem skrifaði var að gefa góð ráð um tiltekt, gott mál það. Þar sem ég er búin að eyða heilli helgi í að taka til í pappírum sem samkvæmt fyrri skilgreiningu voru að hlaðast óhuggulega upp hjá mér fannst mér upplagt að reyna að fá smá “tip” frá þessari góðu konu sem greinilega hafði rannsakað þetta fyrirbæri vel. Semsagt núna eru pappírarnir mínir eins og heima hjá raðara en hversu lengi það helst er ekki gott að segja. Allavega nýt þess meðan það helst. Næsti staður til að rannsaka og fá tip um er þvottahúsið þar sem fjallið “ófrágengin” er að verða ansi hátt og hætta á skriðuföllum ef heldur fram sem horfir.

No comments: